Steining húsa hefur færst í vöxt á síðari árum og er það vel.  Þessi aðferð var mjög vinsæl á árum áður og voru heilu hverfin steinuð svo sem Hlíðarnar, Melarnir, Holtin auk Þjóðleikshúss og Háskóla Íslands og fl og fl.

Þessi aðferð lagðist af til fjölda ára og málning tók við og má segja að handbragðið hafi gleymst því er steining hófst aftur kom í ljós að verkkunnáttan var ekki til staðar.  Að vísu voru elstu menn með þetta á hreinu og var kunnáttan sótt til þeirra, þannig að þetta bjargaðist.

Steiningin er bæði falleg og endingargóð,hún endist í 50-60 ár en hafa þarf í huga ýmislegt varðandi þessa aðferð því vart hefur orðið við annmarka á henni sem auðvelt er að bæta úr sé rétt staðið að málum.

Það sem oftast er kvartað undan og hefur ætíð verið vandamál og sem veldur mestum skaða, er þegar rigningarvatn af steinuðum flötum rennur niður á gler, þá koma taumar og blettir á glerið sem erfitt er að hreinsa.  Þetta hefur verið kallaður kísill en er ekki kísill heldur kalkjónir, kalíum karbónat sem ekki nýtast steypuefnunum í steiningarlíminu og koma sem úrfelling út úr fleti og hripa niður á glerið með rigningarvatninu og þorna þar.  Þessa blöndu er erfitt að þrífa en mögulegt þó hún nái að þorna á glerinu til langs tíma.  Auðvelt að þvo hana af sé það gert jafnharðan og ekki nægir að spúla glerið því það þarf að kústa það um leið.

Þetta er mikil vinna en vel þess virði.  Nokkrir verktakar í gluggaþvotti kunna til verka í þessu.  Þá má geta þess að þessu linnir á 2-3 árum en skynsamlegast er að sílanbaða húsin svo fljótt sem verða má eftir steiningu tvisvar sinnum til að verjast þessum úrfellingum og síðan á 3ja ára fresti til að verja steininguna fyrir óhreinindum en það er nokkur ljóður við steiningu hve hún óhreinkast mikið.  Óhreinindin eru ryk og önnur mengun frá umferð sem er mjög kvimleið og erfitt að þrífa.
 


Ef vandamálið er komið og glerið orðið leiðinleg og nokkuð taumað að utan er bara eitt að gera í stöðunni og það er að fá verktaka til að þrífa glerið.  Nokkuð góður árangur næst en ekki 100 % og veldur mest hversu fljótt er þrifið.  Fyrsta umferð ( aðgerð ) er tímafrekust en hinar 2 síðari er að mestu venjulegur gluggaþvottur.

 

Ljótt að sjá.


 

Slæm vinnubrögð við steiningu húss, steiningarlímið sjáanlegt við hverja færslu.