Ástandsskoðun er oftast gerð fyrir kaupendur fasteigna. Með hliðsjón af skýrslunni getur kaupandi betur áttað sig á ástandi eignar og hagað tilboði eftir því. Seljendur ættu líka að sjá sér hag í að leggja hana fram með eign sinni við sölu þannig að hún fylgi eigninni á netið. Ástandsskoðun fækkar dómsmálum.

Það er mikill misskilningur að ekki þurfi að ástandsskoða nýjar eignir, það hefur reynslan sýnt. Ástandsskoðun er einnig heppileg fyrir hinn venjulega húseiganda. Með skýrslunni fær hann greinargóðar upplýsingar um eignina og getur því stillt viðhaldsverkefnum í rétta röð en á þessu vill oft verða misbrestur. Ástandsskoðun er ekki heildarúttekt á eigninni.

Hraðskoðun

Hraðskoðun er framkvæmd þannig að skoðunarmaður gengur um eignina t.d. með kaupanda og útskýrir fyrir honum kosti og galla viðkomandi eignar. Þetta er helst gert þegar mikið liggur á og er þá ekki unnin skýrsla.

Þú ert ábyrgur!

Það er mikilvægt fyrir kaupendur að átta sig á því að þeim ber að skoða eða láta skoða fyrir sig. Ekki er hægt að koma með kvörtunarlista um mörg atriði við afsal. Þú ert ábyrgur og átt að skoða.

Ástandsskoðun bætir ekki eignina í þeim skilningi að skoðun er ekki viðgerð. Hafi eign leyndan galla er hann ekki af völdum skoðunarmanns.

» Sýnishorn af ástandsskýrslu á PDF formi.


Dómur Hæstaréttar 4. mars 2004. Mál nr 180/2003.

Á og H, kaupendur tilgreinds húss, héldu eftir hluta umsamins kaupverðs vegna ætlaðs galla á þaki hússins. Seljendur P og S höfðuðu mál á hendur þeim til heimtu eftirstöðvanna. Að gögnum málssins virtum var talið að umræddir gallar hafi ekki átt að geta dulist væri eignin skoðuð með þeirri athygli sem ætlast mátti til. Var því ekki á það fallist að um leynda galla hafi verið að ræða á þaki hússins. Á og H var því gert að greiða eftirstöðvar umsaminnar kaupsamningsgreiðslu.

Skoðið þennan dóm hér. Hér voru leiddir saman færustu sérfræðingar en að mati dómsins var aðeins einn þeirra með réttu lausnina. Að lokum kvað Hæstiréttur úr um það að skoðunarskyldu hafi ekki verið nægjanlega sinnt og er það hið besta mál.