Sívaxandi vandamál hafa komið fram vegna myglusvepps sem er þó ekki nýr í sjálfu sér. Sveppurinn er í náttúrunni og hefur mikinn tilgang þar. Varðandi þau tilfelli sem undirritaður hefur komið að vil ég minnast á nokkur þeirra og eru þau mjög mismunadi og af mörgum toga

Varðandi þök.

Þar ber mest á ófullnægjandi loftun svo sem að loftunarrör með neti hafa verið of fá, eða eitt 40mm í staðinn fyrir tvö í hvert sperrubil. Vindpappi með ófullnægjandi frágangi, skörun og festing ekki í lagi. Loftflæði yfir þakásinn ekki verið fullnægjandi. Rakasperran neðan við einangrun ekki verið í lagi vegna ónógrar skörunar plasts og límingar límborða yfir kanta þess og að plastið komi ca 10 cm niður á veggi og er svo skorið neðan við lagnagrind í lokin. Þá þarf að huga að hvort göt séu í plastinu en leki má alls ekki vera því þéttleiki er það sem gildir já eins og í blöðru. Þetta er mjög veigamikið atriði.

Nýlegri vandamál eru vegna tilkomu 200 mm steinullar með áföstum vindpappa. Menn hafa sett þessa ull í þök þar sem sperrubreidd hefur ekki verið nægjanleg þ.e 48x198mm þannig að ullin fer alla leið upp í þakklæðningu og engin loftun verður þá til staðar. Gæta ber vel að þessu en sperrubreidd þarf að vera 48x223 til að fullnægjandi sé.Þá er ekki nægjanlega vandað til verks því þéttleiki ullar og samskeyti þurfa að vera þétt til endanna og reyndar allstaðar því annars er verkið ónýtt. Gamla góða borðaklæðningin gefst betur en krossviður í þakklæðningu.

Ekki má gleyma venjulegum þakleka þar sem trassað hefur verið að lagfæra. Oftar en ekki er komin dökk slikja á sperrur og allt orðið vott því öndun er ónóg miðað við lekann. Gætið vel að þakinu og öllu sem hugsanlega getur valdið leka, sérstaklega í kringum skorsteina. Leka þarf samt ekki til, því nóg er að öndun sé ekki í lagi. Ekki gera þau mistök að að loka fyrir öll loftunargöt þegar leka verður vart frá þaki eftir langan frostakafla og þiðna fer. Þetta eru einkenni á þakleka og ónógri loftun og fyrir alla muni ekki loka loftunargötum. Það kemur til af því að rakinn/vætan yfir einangruninni frís og þiðnar að sjálfsögðu í þíðu og þá lekur niður í íbúðina.Það er mjög algengt að fólk taki rangar ákvarðanir sem gerir illt verra og oft er um óvönduð vinnubrögð að ræða. Mygla þrífst ekki nema þar sem raki eða bleyta er.


Myglusveppur innandyra.

Helsta vandamálið er ónóg loftun og þá sérstaklega í svefnherbergjum og því nauðsynlegt að sofa við opinn glugga og opnar dyr. Við mennirnir erum í raun rakavélar og þessvegna er nauðsynlegt að lofta vel í svefnherbergjum. Einnig að hafa dyr opnar yfir daginn því loftleysi í herbergjum er ekki til góðs og er ekki heilsusamlegt. Þá er mikilvægt að hafa gardínur ca 15cm frá sólbekk glugga þannig að það lofti um glerið því oft er glerið löðrandi í vatni. Einnig er ráð að draga gardínur fram yfir sólbekk ef fólk vill ekki að sjáist inn og fá þannig loftun á glerið. Vandinn byrjar við að vatn liggur í gluggabotnstykki og mygla byrjar sem svört skán við glerið. Fljótt fer málning á gluggabotnstykki að losna og jafnvel fúi kemst í viðinn. Ég hef oft komið að svefnherbergjum þar sem gler eru vot og svört skán niður við glerið sem er mygla.

Í horni svefnherbergis. ( takið eftir í úthorni ).

raki í hornum

Hér hefur sveppurinn fundið sér góðan og rakan stað og þarna dafnar hann vel. Hvernig gat fólk búið við þetta?

 

Einnig eru böð og þvottahús varhugaverð því loftun þessarra rýma er oftast ónóg og aukin loftun því nauðsynleg. Þarna eru oft 4-5 vatnslásar sem vatn gufar uppúr og rakamyndun mikil. Langar sturtuferðir gera sitt og því er allur varinn góður með góðri loftræstinu, með því að hafa opinn glugga eða loftræstingu með viftu. Sveppurinn sést oft í baðloftum vegna ónógrar loftunar þar. Þá eru sturtuveggir varhugaverðir ef ekki hafa verið notuð nægjanlega góð klæðning undir flísar og virðist besta lausnin vera að hafa sturtuklefa sem nú fást í allskonar gerðum og eru frábærir. Varðandi baðkör er mjög áríðandi að raðbora 9x9 cm ferkantað gat í svuntu baðkars á móts við vatnslás og setja rist yfir. Þetta er gert til að vel lofti undan baðkari því oft vill leka með karinu við veggi og því er nauðsyn að lofta vel undan því annars er voðinn vís því myglan þarf ekki birtu. Ég hef séð íbúðir þar sem raki er það mikill að líkja má við saunabað, allir gluggar votir og hvergi opinn gluggi og ofaná allt er þvottagrind á miðju gólfi með blautum þvotti. Þetta eru kjöraðstæður fyrir myglusvepp, fólk verður að hafa það í huga. Nauðsynlegt er að opna svaladyr og lofta rækilega um stund 2-3svar í viku. Í nýjum íbúðum er í raun ekki gert ráð fyrir að hægt sé að hafa þvottasnúrur og vegna þessa er rakavandamál æ oftar að koma upp meðal annars af því að veggir hafa ekki haft tíma til að lofta rakanum út því byggingarhraðinn er orðinn það mikill. Gott ráð er að fara að öllu með gát, rakamæla t.d. gólf áður en gólfefni eru lögð. Einnig er ráðlagt að mála ekki fullnaðarmálun fyrr en eftir ca 2 ár. Þetta er gert til að leyfa veggjum að anda út og sprungum að koma fram. Þá er varhugavert að hafa fataskápa með bökum á útveggjum eða í eldhússinnréttingu, ónóg loftun er þar á bakvið því útveggurinn þarf að anda og því skynsamlegast að taka bakið úr. Einnig þarf að bora í sökkla í þessum tilvikum. Þetta kemur nokkuð oft fyrir og er þá ljótt að sjá. Einnig ber að varast að hafa lausa skápa, rúmgafla og rúmhliðar fast að útvegg því loftun veggja þarf að vera í lagi. Mikið atriði er mikill þrifnaður því þannig kemst fólk fyrr að vandanum.

Hús 50 ára og eldri.

Hús sem byggð voru fyrir 1960 hafa ekki drenlögn og nú eru annmarkar þar á að koma í ljós. Með aldrinum fer steypan að gefa sig og springa. Járnalögn með minnsta móti, kannski 2 járn að neðan og 2 járn að ofan og engin önnur járnalögn. Sökkulveggir hafa gefið eftir undan þunga aðfyllingar en komið hefur verið fyrir þetta með aukinni járnbindingu nú. Einnig tíðkaðist ekki að járnbinda jarðplötur og vildu þær síga er jarðvegur seig undan þeim og hefur einnig verið bætt úr þessu í nýrri húsum með aukinni járnbindingu. Við erum að læra þó seint sé. Nú eru sökkulveggir og kjallaraveggir með jarðfyllingu uppá miðja veggi eftir atvikum farnir að að gefa sig og vatn farið að sítla í gegnum þá. Þetta er verst t.d. á bak við skápa og er sveppagróður mikill eins og áður segir. Nauðsynlegt er að grafa með húsi og þrífa veggi, tjörukústa, setja sökkultakkadúk og að lokum leggja drenlögn og hreinsibrunn. Nauðsynlegt er að hafa byggingafulltrúa með í ráðum og láta teikna verkið til framtíðar litið Engin rakavörn er undir þessum gólfum og þau því rakadræg. Einu gólfefnin sem duga við þessar aðstæður eru flísar því fúgurnar hleypa rakanum upp.

Bílskúrar.

Bílskúrar eru sérkapituli, því loftun er oftast ekki í lagi. Loftun er ekki í lagi af því að 4 ristar vantar á bílskúrhurðina 2 að ofan og 2 að neðan til að fá hreyfingu á loftið. Við þekkjum málið þegar bíl er ekið inn í skúrinn og hjólskálar eru fullar af snjó og bíllinn allur snjóugur. Þarna er í raun gríðarlega mikið vatn þegar snjórinn bráðnar og vatnið gufar svo upp. Við þessar aðstæður ryðgar bíllinn fljótt. Því er nauðsynlegt að hafa opinn glugga í hinum enda skúrs. Fólk er hrætt við að hafa glugga opna vegna kattaplágu, músaplágu en þessu er hægt að bjarga með að hafa álrist í stað glers í opnanlega faginu. Einnig eru tilfelli þar sem veggur með hurð þverar rýmið og geymsla innst í bílskúrnum. Hurðin teppir loftun rýmis og því nauðsynlegt að setja 2 ristar á hana því alvanalegt er að sjá að það sem geymt hefur verið í hinu lokuðu rými sé allt ónýtt. Tjöld og fellihýsi þarf að þurrka vel áður en þau fara í geymslu.

Nýjir og þurrkaðir ávextir.

Epli og eru sprautuð með bóni að utan til að þau haldi sem lengst ferskleika sínum og öll þekkjum við þegar grænir blettir koma á appelsínubörkinn en þar er sveppur að verki. Einnig þegar dökkur blettur myndast á banana því þar er einnig mygla á ferð. Á tómötum má sjá þegar mygla byrjar ( litlir dökkir blettir ) því þá veit maður hvað er þar á ferð. Þetta má sjá á þurrkuðum ávöxtum þegar geymsluþol er að þverra. Öll vitum við hvernig brauð mygla og verða græn. Þarna er á ferðinni hinn eiginlegi þáttur náttúrunnar og í raun eru sveppir út um allt. Að framansögðu má sjá að vandamálið er víða og að mörgu er að hyggja því það er margar tegundir af sveppi og mishættulegar. Mikilvægast er hafa varann á og huga vel að öllum leka því sveppurinn lifir í raka og því nauðsynlegt að grípa inní strax og komast fyrir lekann en láta hlutina ekki drabbast. Ef fólk verður vart við myglusvepp er ráðlegt að leita aðstoðar því margar gerðir eru til af sveppum sem eru mishættulegir en nokkur fyritæki eru á markaði sem sinna því máli t.d Hús og heilsa. Nauðsynlegt er fyrir fólk að gæta alls öryggis og setja á sig viðurkennda grímu sem fyrst við hreinsun því fólk getur sýkst við öndun,snertingu og í gegnum húð. Einnig ber að athuga að aðeins einn fjölskyldumeðlimur gæti veikst. Varðandi byggingar er orsök vandans þar óvönduð vinnubrögð og hraður byggingatími. Þá er vankunnátta og ábyrgðarleysi einnig vandamál og þarf að taka á þeim málum af festu og einnig með aukinni fræðslu.

Að lokum. Aldrei er of varlega farið og númer eitt er að lofta út reglulega og gæta að leka og stoppa hann sem fyrst. Einnig að mygla þarf ekki birtu til að þrífast.

Magnús Þórðarson

matsmaður.

www.mat.is