Við höfum átt í basli í hinni votviðrasömu veðráttu sem eirir engu og eyðileggur fyrir milljarða á ári hverju. Mikil bót varð þegar farið var að gagnverja timbur þar sem fúavarnarefnið var inndreypt undir lágum þrýstingi. Aukning myglusveppa er nokkur og mun hún aukast um ókomin ár. Að mörgu er að hyggja varðandi þessi mál og rétt að kynna sér það nýjasta í vörnum gegn myglusveppum, fúa og veggjatítlum sem og öðrum kvikindum. Í Bandaríkjunum er sveppavandamál í 59% húsnæðiskaupa þannig að vandinn þar er mjög mikill.
Nýlega sá ég þátt á Stöð 2 sem er þáttaröð er ber nafnið Extreme Makeover: Home Edition, þar sem fólk sem hefur lent í skakkaföllum biður þáttinn um aðstoð vegna húsnæðisskorts og fátæktar. Í þættinum var verið að hjálpa ekkju með 6 börn þar sem hún hafði misst mann sinn vegna sveppasýkingar. Þau höfðu keypt lítið hús og voru að dytta að því á alla vegu og bóndinn fílhraustur slökkviliðsmaður hafði verið að gera við lekamál en lekinn hafði verið viðvarandi í langan tíma. Þetta var í skriðkjallara og nokkur bleyta þarna og hann unnið að viðgerð án þess að hafa grisju fyrir vitum. Í framhaldinu veiktist hann illilega og var dáinn að nokkrum dögum liðnum, banameinið var sveppasýking í lungum. Stóð ekkjan ein eftir með sex börn og var hún svo sannarlega bænheyrð í þættinum. Þarna var tekið til höndum og gamla húsið rifið og nýtt og mikið stærra byggt. Sá ég að þeir notuðu blátt efni í gólf, húsgrind og klæðningu sem og annað. Þetta vakti athygli mína og forvitni svo ég grennslaðist aðeins fyrir um málið sem ég vil hér kynna fyrir ykkur, Bluwood timbrið.
BLUWOOD
Fyrir ca 10 árum kom á byggingamarkaðinn í BNA ný tegund af gagnvörðu timbri. Það sérstaka við þessa afurð var að allt efnið var einnig húðað með sérstöku efni er myndar filmu á því og varnar því að allar pöddur og termítar gætu valdið skaða og ekki síst að timbrið var varið fyrir sveppagróðri og fúa.
Kostnaðarauki á efni vegna þessa er talinn vera 15%.
Efni sem svona er meðhöndlað er notað í húsgrindur,gólf, þakviði og utanhússklæðningar og hefur reynst vel og sannað ágæti sitt. Engin hætta er á ryði vegna efnanna í timbrinu eins og er með gagnvarið timbur þannig að málmar ryðga ekki og lofar það góðu. Ekki er það hættulegt mönnum en gæta skal allrar varúðar engu að síður. Með hverri sendingu fylgir með smálögg af efnunum sem borið er á nýsagaða enda.
Efnið er gagnvarið með sérstöku efni líkt og gert er hér á landi. Þessi aðferð er tveggja verkþátta er heitir Perfect Barrier System. Síðan er efnið húðað með sérstöku efni er hindrar sveppamyndun og er vörn gegn skordýrum og er hinu efninu til varnar. Ekki er ætlast til að það komi í snertingu við jörð og nauðsynlegt er að mála það sé það notað utandyra enda er það frekar ljótt á litinn.
Varðandi myglusvepp.
Bráðnauðsynlegt er að komast fyrir allan leka sem fyrst og nota alltaf grisju fyrir vitum . Varðandi hreinsun er nauðsynlegt að fara eftir ráðleggingum frá Hús & Heilsu þar sem megináherslan er lögð á vandaða hreinsun og næga loftun. Nauðsynlegt er að ráðast á staði þar sem vitað er um að leki hafi verið.
Taka þarf gólfefni og klæðningu af og leggja ný og umfram allt að standa vel að öllu verki eins og kostur er. Ekki er hægt að lofa fullnaðarsigri en mest um vert er að vera vakandi fyrir því í hvaða umhverfi sveppurinn þrífst, þ.e. í bleytu og eða í röku lofti. Þvottasnúrur innandyra er mikill rakaframleiðandi. Sérstakt eftirlit þarf að hafa með börnum, sérstaklega asmaveikum, því allur er varinn góður.
Hér á síðunni er linkur raki í íbúðum þar sem lesa má nokkurn fróðleik um sveppa gróður í íbúðum.
Gangvarið timbur hefur ekki verið leyft í húsgrindum en þetta efni er viðurkennt vestra að öllu leiti.
Einkaleyfi er á þessum efnum svo og á allri vinnslu og sækja þarf um til rétthafa og er allt eftirlit með vinnslunni mjög strangt. Æskilegast er að efnissalar hafi þetta á sinni könnu svo sem gert er hér með hitt gagnvarða timbrið.
Ekki er að efa að aðferð þessi á erindi hingað.