K-gler gerir gæfumuninn. Litað gler og sólvörn.
All gler sem nú er notað er K-gler samkvæmt lögum og er svokallað flotgler og er það mun betra að gæðum en áður fyrr. Hrein undantekning er að útaf beri í gæðum en allt getur samt gerst. Ekki er gott að sjá hvort gler sé K-gler nema að getað þreifað á glerfletinum sjálfum en K filman er innbrennd í glerið og er sá flötur mun stamari viðkomu.
K-glerið er haft sem innri rúða í tvöföldu gleri og er filman látin snúa inn í holrúm á milli glerja. Filman kastar herbergishitanum aftur inn í herbergið. Erfitt er því að komast að því hvort glerið sé K-gler þar sem filman er inn í holrúminu en undirritaður hefur notað rakamæli sinn til að skera úr um þetta atriði. Filman er blýmenguð og mælirinn skynjar það og truflast er hann nemur málm.
Litað gler og sólvörn.
Litað gler er gegnheilt litað og mikið notað sem sólvörn. Reynslan er samt sú að það verður leiðigjarnt og því er oft skipt út vegna þessa. Farsælast er að hafa litinn sem daufastan. Ef þú býrð í fjölbýlishúsi er ráðlegast að leita samþykkis húsfélags því dómur er til, þar sem íbúðareigandi var dæmdur til að fjarlægja litað gler að kröfu húsfélags.
Glerborg hefur þann háttinn á að hafa K-glerið sem ytra gler í venjulegu gleri en K-glerið sem innra gler í sólarstoppi.
Þetta rökstyðja þeir með því að hérna séu miklar hitasveiflur pr dag að venjulegt gler þoli það ekki og þessvegna þurfi að verjast þeim sveiflum. Trúlega getur þetta átt við um stórar rúður.
Aukin hitaeinangrun tvöfalts glers.
K-gler hefur sama einangrunargildi og þrefalt gler sem er mun dýrari kostur.
Ennþá nýrri tækni til að auka hitaeinangrun glers er að fylla loftrúmið milli glerjanna með argongasi sem hefur litla varmaleiðni. Til að ná afburða
hitaeinangrun er æskilegt að loftrúm á milli glerja sé allt að 15mm ( er 12mm í dag ) og glersamsetningarlistar séu með eins fáum samsetningum og kostur er svo hætta á leka sé sem allra minnst.
Hljóðeinangrun glers.
Vaxandi bílaumferð og hávaði í umhverfinu hefur kallað á öflugri hljóðeinangrun híbýla. Almennt má segja að hljóðeinangrun fari eftir þyngd byggingahluta. Því þyngri sem byggingarhlutinn er þeim mun betri hljóðeinangrun veitir hann. Þá skiptir einnig máli að hann sé þannig uppbyggður að sama tíðni sé ekki alla leið í gegn.
Það sama á við um gler og aðra byggingahluta. Þykkar og þungar rúður veita betri hljóðeinangrun og mismunandi þykkt glerjanna dregur úr leiðni hljóðs inn í vistarverur. Því eru hafðar tvær þykktir í tvöföldu gleri og jafnvel þrjár þykktir í þreföldu. Þykktaraukning á milli glerskífna þarf helst að vera 50% eða meiri og hægt að auka árangurinn með því að hafa eina glerskífuna lamineraða ( með pvc-filmu á milli tveggja glerskífna ).
Hámarksárangri í hljóðeinangun glers má svo ná með því að fylla loftrúmið milli glerjanna með eðlisþungu gasi. Gasfylling, og annar frágangur, til að mestum gæðum verði náð, krefst flókins búnaðar sem Íspan Smiðjuvegi hefur yfir að ráða.
Styrkleiki glers.
Á árum áður 1960-1980 voru arkitektar nokkuð gluggaglaðir í hönnun sinni.
Stofugluggar voru gólfsíðir og póstar fáir. Þetta varð til þess að þessar stóru rúður þoldu ekki veðurhaminn þannig að ytri rúðan skall á þá innri og braut hana. Einnig mátti sjá að stór rúða svignaði til þannig ytra glerið slitnaði frá állistanum og einnig að hún pumpaði vatni inn í botnfalsi. Þetta voru byrjunarefiðleikar sem búið er að komast fyrir með markvissum hætti en fyrstu viðbrögð voru að nota 8mm gler að utan og eins að hafa meiri þrýsting á milli glerja.